Réttarkerfið í molum

OK, látum okkur nú sjá.

Það á sér stað mannrán.

Mysþirmingar sem auðveldlega hefðu getað leitt til dauða.

Og að lokum er maðurinn skilinn eftir út í sveit í blóði sínu.

Fyrir þetta sitja brotamennirnir þrjá mánuði í grjótinu.

Er ég einn um að finnast þetta einkennilegt?

Það á að loka svona menn inni í minnst fimm ár.  


mbl.is Dæmdir í fangelsi fyrir líkamsárás og frelsissviptingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umferðarhraðinn í Reykjavík

Ég hef átt heima í Reykjavík síðustu ár eftir að hafa alist upp á landsbyggðinni. Samt hef ég ekki enn vanist hraðanum sem viðgengst í borginni.

Er ég aumingi vegna þess að ég vil keyra innanbæjar á max 70 km hraða? Það virðist vera því ég fæ stingandi augnaráð frá fólki sem þeytist framúr á 90-100. 

Er það eðlilegt í þungri umferð að keyra á 90 km hraða á tveggja akreina umferðaæð? Það má ekkert gerast hjá bílnum á undan til þess að hörð aftanákeyrsla verði staðreynd. 

Að mínu mati er umferðahraðinn í Reykjavík allt of mikill. 

Hvað veldur?

Margar ástæður eru fyrir hendi en að mínu mati mætti kenna mislægum gatnamótum um.

Gera menn sér grein fyrir að frá Shellsjoppunni á Akureyri til Grensásvegar í Reykjavík eru engin umferðaljós?
Hringtorg hjá Byko á Akureyri.
Hringtorg á Blönduósi.
Hringtorg hjá Hvalfjarðagöngunum.
Guð má vita hversu mörg hringtorg eru í Mosó.
Mislæg gatnamót hjá golfvellinum í Grafarholti.
Mislæg gatnamót hjá Höfðunum
Mislæg gatnamót Miklubraut-Skeiðarvogur.
Og loks umferðaljós.

Þetta var smá útúrdúr en hvað gera mislæg gatnamót? 

  1. Þau flytja álagspunktana. Ef þú setur mislæg á gatnamót A-B þá flytjast álagspunktarnir á gatnamót A-C. Þar myndast tappi þar sem öll umferðin kemur í einni stórri bylgju. Segjum að í staðinn fyrir öll þessi mislægu gatnamót þá væru umferðaljós, svipað og á Miklubraut-Kringlumýrabraut, væri þá þessi umferðatappi á gatnamótunum Lönguhlíð-Miklubraut? Ég efast stórlega um það.
  2. Byggingarland minnkar. Það vantar byggingarland í Reykjavík. Mislæg gatnamót taka mikið pláss og hvað þurfti að gera þegar hið viðurstyggilega skipulagsslys sem gatnamót Hringbraut-Bústaðarvegur var sett á skipulag? Jú, taka eignarnám til þess að rýma fyrir steypuklump. Og það meira að segja forljótum.
  3. Hraðinn eykst. Það virðist sem krafan er að geta keyrt frá heimili sínu (A) til vinnu (B) án þess að lenda á rauðu ljósi. Mislæg gatnamót eru vissulega kostur ef þetta er ætlunin en hraðinn eykst í kjölfarið. Ef það eru engin (eða fá) umferðaljós til þess að hægja á ferðinni þá er að sjálfsögðu óhjákvæmilegt að hraðinn eykst. Það þarf engan vísindamann til þess að segja manni það.

Þarna er meginpunkturinn. Með aukinni bílaeign þá er bara óhjákvæmilegt að það taki tíma að komast í vinnuna. Þegar byrjað var á mislægum gatnamótum þá held ég að það hafi ekki verið hugsað til enda. Því að þegar var byrjað þá verður að búa til fleiri því það er aðeins verið að færa tappana. Fleiri mislæg gatnamót = meiri hraði = fleiri slys.

Betra hefði verið að fjölga akreinum og halda ljósunum. Með góðri stillingu á ljósum er vel hægt að koma því fyrir að ef keyrt er á 60-70 þá er hægt að keyra helstu umferðaræðarnar án þess að lenda á rauðu. Maður væri lengur að komast í og úr vinnu en ég veit það ekki, mitt mottó er að komast á áfangastað heill á húfi. Ekki á sem skemmstum tíma. 

 


mbl.is Fjórir fluttir á sjúkrahús eftir árekstur á Miklubraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferfalt húrra fyrir fyrsta bloggvininum...

...og það er hann Bóbó Blaðberi.

Núna er fyrsta skrefinu lokið en langt er á tindinn.

Næst á dagskrá er að blogga um sem flestar fréttir og fá fólk til að lesa skoðanir mínar.

Því meira sem ég kem mér á framfæri, því fleiri lesa bloggið.

Þeim mun meiri lestur, því meira egóbúst.

Er þetta ekki annars tilgangurinn með moggablogginu eða er siðlaust að vera hreinskilinn? 


Heyrðu Haarde, reality check

Geir H. Haarde fór mikinn í kvöldfréttum sjónvarps og sendi byrgjum og smásölu tóninn. Ástæðan? Jú, hann er hræddur um að þeir hirði hluta af lækkun skatta sem á að taka í gildi 1. mars næstkomandi.

Nú spyr ég, hvers vegna mega byrgjar og co ekki hirða ágóðann? Er það allt í einu orðið ólöglegt að hækka álagningu á vörum og þjónustu? Hver segir að við neytendur eigum endilega á hagnast á þessu? Á maður bara að kaupa allt sem blessaður Geir segir okkur?

Ó nei. Ég er hinn dæmigerði neytandi. Versla kannski í matvörubúðum fyrir um það bil 20.000 á mánuði. Myndi ég vilja að þessi upphæð myndi lækka um einhver prósent? Auðvitað. Hef ég einhvern rétt á því að krefjast þess að byrgjar og co taki ekki til sín einhvern hluta af þessum pening? 

Eini rétturinn sem ég hef er að mótmæla og það er eitthvað sem við Íslendingar erum ömurleg í. Við höfum gott skammtímaminni en langtímaminnið er önnur saga. Við tuðum í tvær vikur og höldum svo áfram að versla þar sem við erum vön.

Hvar liggur þá hundurinn grafinn? Jú, Geir, Árni og félagar eiga auðvitað að hafa svona hluti á hreinu. Það eru ótal leiðir færar í skattalækkunum. Ef samskonar upphæð hefði til dæmis verið varin í að lækka komandi nefskatt þá hefði peningurinn skilað sér miklu betur til okkar. 

Ég er nú langt í frá einhver hagfræðingur en ég hef heilbrigða skynsemi í vopnabúrinu. Ef ríkisstjórnin hefði haft vott af henni þá væri þessi umræða óþörf. Auðvitað vill ríkisstjórnin hafa upphæðirnar sem sýnilegastar; það eru jú kosningar í nánd. Lækkun á nefskatti er ekki nógu sexí. Hins vegar tel ég nokkuð öruggt að þessar aðgerðir skila sér ekki allar til Gunnars og Guggu.  Jón og Jóhannes munu hins vegar hagnast og ég mun ekki gera neitt í því.

Það versta er að Geir, Árni og hinir leppalúðarnir geta heldur ekkert gert þrátt fyrir hótanir.

Ósanngjarnt? Kannski.

Fyrirsjáanlegt? Auðvitað.


Leti er dyggð

Ein af syndunum sjö er leti og er hún almennt talin slæm. Fólk pískrar sín á milli ef einhver er latur og virðist sem það sé ófyrirgefanleg synd. En er það svo?

Vissulega er leti vandamál ef viðkomandi hefur áhyggjur af áliti annarra. Þá þarf að fara fela syndina með ráðum eins og að gera hluti öðru hvoru þegar aðrir sjá til. Það gæti hentað ýmsum.

Eins hafa margir þörf fyrir að vinna eins og geðsjúklingar. Gott hjá þeim.

En hvað ef álit annarra er ekki vandamál og maður nennir ekki að vinna? Er það synd að vera latur?

Ég segi nei.

Er það virkilega meiri dyggð að vinna 70 tíma á viku í 45 ár og eyða þar með bróðurpartinum af lífinu í skítadjobbi meðan maður getur unnið 30 tíma á viku á Raufarhöfn þar sem húsnæði kostar næstum jafn mikið og jakkaföt hjá Sævari Karli?

Kannski ef það veitir manni lífsfyllingu að eiga jeppa upp á fjórar milljónir, hús upp á tuttugu og innbú upp á annað eins.

En er það virkilega tilgangur lífsins að vinna baki brotnu fyrir dauðlega hluti?

Eða er tilgangur lífsins að láta sér líða vel?

Tala nú ekki um þegar maður hefur kannski bara eitt líf til að eyða.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband